
Andleg einkaþjálfun
Andleg einkaþjálfun hjá mér snýst um að kenna einstaklingum að finna út hvað raunverulega liggur á bakvið heftandi hegðunarmynstur, en það kalla ég skugga. Skuggar eru afar áhugaverðir. Þeir fela sig gjarnan, ef ekki alltaf, í styrkleikunum okkar og þess vegna er svo erfitt að sjá þá. Við vitum oft af heftandi hegðunarmynstrum í lífi okkar en það sem við gerum yfirleitt er að taka á þeim "á hnefanum" eða með hreinum viljastyrk. Það virkar tímabundið en áður en við vitum af erum við aftur komin í gamla farið og berjum okkur niður fyrir að hafa ekki náð að halda þessu við. Að mínu mati hefur þessi aðferð ekki langvarandi áhrif nema við komumst að rót skuggans og losum um hana.
Þjónustan sem ég býð upp á er fyrir hvern þann sem hefur áhuga á að vaxa sem einstaklingur og losa sig við óákjósanlega ávana. Markmiðið mitt sem leiðbeinandi er að taka á móti einstaklingum frá öruggum, hlutlausum stað þar sem ég dæmi ekki hegðun, orð eða hugsanir þeirra. Ég vinn með að hlusta á orkuna bakvið orðin og staðsetja skuggana í von um að koma þeim á yfirborðið, á stað þar sem einstaklingurinn hefur möguleika á að sjá þá sjálfur frá stað þar sem hann getur sýnt sér skilning og umburðarlyndi. Ég tek opnum örmum á móti öllum þeim sem hafa áhuga á þessari vinnu og legg mikinn metnað í að viðskiptavinir nái sjáanlegum árangri. Ef þetta vekur áhuga og þú tengir við skaltu ekki hika við að hafa samband. Ef þú hefur spurningar eða vilt bóka tíma tek ég vel á móti þér.